Hvernig get ég gert aðeins betur án þess að klára mig?

Hefur þú einhvern tíma ákveðið að gera aðeins betur og endað svo á að gera alltof mikið og klárað þig?

Ég held að flestir tengi við það að ofpeppast yfir þessu sem við sáum allt í einu sem tækifæri en þetta klárar svo tankinn okkar og við brennum út.

Það er svo mannlegt að vilja vaxa og bæta sig en jafnvægi er besti vinur okkar.


Þú þarft ekki að brenna út til að bæta þig

Litlar breytingar = stór áhrif

Að ákveða að bæta við litlum venjum getur oft umturnað lífi okkar, venjur sem eru partur af hversdagsleikanum og okkur finnst eins og þær munu jafnvel ekki hafa áhrif þegar við horfum á þær fyrst.

En það að taka auka 10 mínútna göngu í hádeginu eða seinni partinn, drekka auka glas af vatni alltaf fyrir máltið eða á morgnanna og teyja yfir kvöldfréttum sem dæmi getur aukið vellíðan til muna án þess að vera mikil fyrirhöfn.


Það er betra að gera lítið í einu en að gefast uppá á þessu stóra með tóman tank


Skýr mörk = jafnvægi

Það er svo auðvelt að hugsa það að drekka eitt auka glas af vatni sé nú ekki að fara að breyta miklu og ætla sér að drekka 5 lítra á dag í staðin. En hvort er vænlegra til árangurs? Tengja það að drekka alltaf vatn þegar þú vaknar eða muna allann daginn eftir að drekka vatn?

Þetta snýst ekki um að gera meira heldur gera hvað er rétt fyrir þig akkúrat núna.

Jafnvægið finnum við í að skilgreina tímann okkar og hvernig við nýtum hann. 

Hvaða boltar eru á lofti? Hvenær er hvíldar tíminn þinn og hvenær er tíminn fyrir þig?

Það má skrolla í símanum, gefðu því bara X langan tíma, það má vera eitt og eitt kvöld fram eftir með góðum vinum mundu bara að passa svefninn hina dagana.


Það er ekki allt eða ekkert heldur hvað gerir þú mest megnið af tímanum?

Fókusinn er það sem heldur þér gangandi

Hvað gefur þér mesta orku ?

Árangurinn býr ekki í stífu plani með fullri dagskrá heldur því að velja markvisst hvað hentar þér og hvaða venjur eru þær sem munu koma þér lengra.

Oft er gott að velja 1-3 hluti á hverjum degi sem skipta þig mestu máli, hvað hefur forgang í dag.

Sem dæmi drekka vatnsglas um leið og ég vakna, ekki fara í símann fyrr en eftir að ég hreyfi mig og vera komin upp í rúm kl 22.

Litlar venjur sem saman verða að stórum ávinningi


Hugsaðu um orkuna en ekki úthaldið

Orkan okkar yfir daginn er eins og bankareikningar, líkamlegi reikningurinn og andlegi.

Stundum er hægt að færa á milli reikninga orku með t.d. að fara í göngutúr þá fyllist oft á andlegu orkuna eða liggja og gera ekkert þá fyllist á líkamlegu orkuna.

Þú þarft ekki að hugsa um að eiga fyrir þessum venjum næstu 100 dagana heldur venja þig á að standa við loforðin sem þú gafst þér og þá safnast hægt og rólega inn á orku reikningana þína.

Næring, hreyfing, góð samskipti og hvíld hjálpa í flest öllum tilfellum við að eignast aukna orku.


Ef þú vandar þig að safna smátt og smátt inn á orkureikningana þá getur þú með tímanum gert meira án þess að klára tankinn þinn

Gefðu þér leyfi að taka stöðuna

Taktu stöðuna á þér og lærðu að taka samtalið við þig, er þetta þreyta? Eða er þetta leti? Þarf ég að sannfæra mig um að það sé best að gera ekkert? Eða liggur það skýrt í loftinu? Stundum er betra að taka hlé heldur en að keyra sig áfram í orkuþrot. En stundum þarftu akkúrat á því að halda að sparka smá í rassinn og halda áfram.

Æfðu þig að skoða hvenær þetta er þreyta og hvenær þetta er leti.


Að gera aðeins minna getur verið besta leiðin til að gera betur í lengir tíma.

Þú þarft ekki að vera ofurmanneskja til að ná árangir, þú þarft bara að gera aðeins betur á þann hátt sem heldur í heilbrigði, orkuna og jafnvægið þar á milli.

Hver dagur er tækifæri að velja litla hluti sem hjálpa þér til langs tíma!

Kærleikskveðja
Karen Ösp

Ég er markþjálfi sem hjálpar þér að finna þinn takt, setja markmið sem skipta máli og halda þeim – án þess að missa gleðina á leiðinni.
Þú þarft ekki að gera þetta ein/n.

Karen Ösp Friðriksdóttir