Markmið sem þú nærð: Hvernig þú nærð árangri án þess að gefast upp

Draumurinn er byrjunin, markmiðið er fyrsta skrefið - en oft byrjum við á fullri ferð, jafnvel of geyst eða án þess að vera í takt við eigin gildi. Þá fjara markmiðin okkar oft út.

Hversu oft höfum við ákveðið að hætta að borða nammi? Eða hlaupa fimm sinnum í viku – þó við höfum ekki hlaupið í tíu ár? Eða ákveðið að eyða ekki í neinn óþarfa, en mætum svo á nammibarinn eftir tvo daga?

Hvaðan koma þessi markmið? Koma þau frá okkar eigin kjarna – eða eru þau hugmyndir frá samfélaginu? Hvað ef þú gerir þetta öðruvísi núna og finnur hvað skiptir þig í raun og veru máli?

Veldu réttu markmiðin – ekki bara þau sem líta vel út á blaði

Markmið eiga að vera eitthvað sem skiptir þig máli, tengjast gildum þínum og lífsstíl.
Þau eiga að ögra þér – en líka vera í takt við það hver þú ert.

Spurðu þig: „Af hverju vil ég þetta í alvöru?“

Sem dæmi:
A. Ég vil hreyfa mig meira til að passa í gömlu gallabuxurnar.
B. Ég vil hreyfa mig meira til að hafa orku til að gera allt sem mig langar.

Byrjaðu smátt og byggðu svo upp. Finndu taktinn sem hentar þér.

Byrjaðu smátt – safnaðu sigrum

Stór markmið geta verið yfirþyrmandi, því það er erfitt að fylgja aðgerðunum eftir alla daga.
Betra er að byrja með 5 mínútur á dag heldur en að ætla sér klukkutíma daglega og gefast svo upp.

Smáir sigrar safnast upp í stóran árangur.
Gullna reglan: 80/20 – eða „eitthvað er meira en ekkert“.

Þróaðu venjur – ekki treysta bara á vilja

Viljastyrkur klárast. Þú ert ekki alltaf peppuð og hvatning kemur og fer. Það sem heldur þér við efnið eru venjur og kerfi sem styðja markmiðið.

Gefðu þér tíma til að setja upp aðgerðir og venjur þannig að þær séu sýnilegar og auðveldar að framkvæma.

Sem dæmi:
Ég hef verið að vinna í því að vakna klukkan 5 á morgnana. Það byrjar kvöldinu áður, þegar ég set fram fötin mín, fylli vatnsbrúsann og plana hvaða æfingu ég ætla að taka.

Mistök þýða ekki að markmiðið sé ónýtt

Ef þú dettur út í einn eða tvo daga er engin ástæða til að gefast upp eða fresta öllu fram á næsta mánudag.

Sýndu þér mildi, gefðu þér séns og finndu leið til að koma þér aftur af stað.
Hugsaðu frekar: „Ég ætla að halda áfram“ í stað „Ég ætla að byrja aftur.“

Það er engin ástæða til að byrja upp á nýtt – þú mátt alltaf halda áfram þar sem þú endaðir.

Finndu stuðning eða þína hvatningu

Sumum finnst hvetjandi að deila markmiðinu með öðrum – hvort sem það er einhver náinn, hópur á samfélagsmiðlum eða formleg áskorun.

Settu þetta upp sem áskorun eða finndu hóp með svipuð markmið. Notaðu þjálfara, dagbók eða app sem heldur þér við efnið.

Ef þú ert ein/n/tt í þessu, notaðu sköpunargleðina – gerðu markmiðið skemmtilegt, sýnilegt og spennandi.

Fagnaðu öllum sigrum – ekki bara þeim stóru

Líttu yfir vikuna:
Hverjir eru sigrarnir þínir? Hverjir eru sigrarnir bara í dag?

Haltu utan um framfarirnar þínar og gefðu þeim jafnt vægi og lokaárangrinum.
Það er ferðalagið sem skapar gleðina og minningarnar.
Hvatning skiptir öllu máli.

Mundu

Þú þarft ekki að vera fullkomin eða gera allt upp á tíu – heldur velja að halda áfram, sama hvað.

Markmið sem þú nærð eru þau sem þú mætir í aftur og aftur, þar sem þú fyrirgefur þér og sýnir sjálfsaga.

 Hver dagur er ný byrjun – þú hefur alltaf val.

Kærleikskveðja
Karen Ösp

Ég er markþjálfi sem hjálpar þér að finna þinn takt, setja markmið sem skipta máli og halda þeim – án þess að missa gleðina á leiðinni.
Þú þarft ekki að gera þetta ein/n.